24 tímar er sett upp til gamans, tilgangurinn er að veita þeim sem kjósa að fá eitthvað jákvætt og uppbyggilegt til að hugsa um inn í daginn
lesefni sem byggt er á 12 reynslusporum frá ýmsum samtökum
Það er gagnlegt að hefja daginn á bjartsýni og jákvæðni, það er líka gagnlegt að nota bæn og biðja æðri máttarvöld um góðan dag.
Trúin og vonin eru ekki deyfilyf sem gera okkur sljó fyrir sársauka og sorgum. Nei, öðru nær.
Vonin gerir okkur kleift að horfast í augu við raunveruleikann sem við blasir hér og nú, hversu sár og örðugur sem hann er.
Vonin veitir okkur að sjá með nýjum augum, sjá það sem gæti orðið í stað þess að sjá aðeins það sem er og við blasir.
Trúin er að grípa í þá styrku og hlýju hönd sem vill leiða gegnum það allt sem lífið sviptir og gefur, höndina sem leiða vill “út og inn,” þerrar tárin, læknar meinin, huggar, styrkir.
Ef streita veldur þér hræðslu, óróa og/eða áhyggjum ættir þú að íhuga hugleiðslu. Aðeins örfárra mínútna hugleiðsla á dag getur raðað öllu í réttar hillur, róað og fært innri frið. Allir geta iðkað hugleiðslu. Það er einfalt og ódýrt og krefst í raun engra sérstakra hæfileika. Það sem er jafnvel meira um vert er að hugleiðsla þarfnast heldur engrar sérstakrar umgjarðar. Hægt er að stunda hugleiðslu hvar og hvenær sem er – hvort sem þú ert á göngu, í strætó, á biðstofu, í sundi og jafnvel á erfiðum viðskiptafundum.
Hugleiðsla hefur verið stunduð í þúsundir ára. Upphaflega svo fólk kæmist í djúpa snertingu við helga og dulræna krafta náttúrunnar, en í dag miklu fremur til að ná slökun og kyrra hugann, þótt annað og meira geti sannarlega hangið á spýtunni.
Hugleiðsla gengur fyrst og fremst út á að beisla streymi óstýrlátra hugsanna sem geta haft áhrif á andlega burði okkar, stíflað hugarflæði okkar og valdið streitu. Í búddismanum er gjarnan talað um apaheilann sem dæmi um hvernig óstýrlátar hugsanir mannsheilans geta hegðað sér, nánast án þess að við fáum nokkuð við ráðið. Líkt og þær hoppi og skoppi á milli trjágreina og uni hvorki sér (huganum) né okkur (líkamanum) hvíldar.
Með reglulegri hugleiðslu getur fólk gert ráð fyrir því að andleg og líkamleg vellíðan aukist. Mjög líklegt er að hugleiðsla færi ekki bara ró og frið heldur líka tilfinningalegt jafnvægi. Það kemur okkur ekki bara til góða rétt á meðan við hugleiðum heldur hefur reglubundin hugleiðsla áhrif á daglegt líf okkar. Iðkun hugleiðslu er afar líkleg til að tappa af yfirfullum huganum sem kann að valda okkur streitu frá degi til dags.
með því að klikka á linkinn getur þú sent mér skilaboð í mali hronnarnfjord@gmail.com
Það hefur verið mér ofarlega í hug í langan tíma að gera síðu sem inniheldur jákvætt efni til að taka með sér inn í daginn... Á ferðalögum er fólk oftar en ekki með síman með sér en „gleymdi“ t.d. bókum sem þar er vant að glugga í að morgni dags og tileinka sér falleg og jákvæð orð inn í daginn þá er gott að vita af síðu sem viðkomandi getur lesið sér til ánægju og eða til gamans eitthvað uppbyggilegt til að hefja komandi dag.