AA samtökin

Dr. Bob, sem ásamt Bill W. er talinn stofnandi AA-samtakanna, hætti að drekka 10. júní 1935 og miðast stofnun samtakanna við þá dagsetningu. Með fulltingi þeirrar hugmyndafræði, sem þeir lögðu til grundvallar, hafði tveim árum seinna nógu mikill fjöldi alkóhólista verið allsgáður nægilega lengi til að sannfæra menn um að nýtt ljós væri tekið að skína í undirheimum ofdrykkjunnar. Þeir tóku nú þá ákvörðun að draga saman reynslu sína og gefa út í bókarformi og kom AA-bókin út í apríl 1939. Þar má finna bataleið AA-samtakanna, reynslusporin tólf. Þegar ákveðnir byrjunarörðugleikar voru að baki uxu samtökin gríðarlega á mjög stuttum tíma og dreifðust um gervöll Bandaríkin. Þar komust fyrstu íslendingarnir í kynni við þau. Stofnfundur AA-samtakanna á Íslandi var haldinn föstudaginn 16. apríl 1954. Þeir sem boðuðu til fundarins höfðu ekki áttað sig á því að föstudaginn sem þeir boðuðu til fundarins, bar upp á föstudaginn langa. En af þessari tilviljun miðast afmæli AA-samtakanna á Íslandi því við föstudaginn langa ár hvert. Stofnfélagar voru 14, en í vetrarbyrjun stofnárið 1954 voru félagar orðnir 80. Lengi vel var haldinn einn, en síðar tveir fastir AA-fundir í viku hverri. Sjúkum var hjúkrað á ýmsum stöðum, fyrst kom Bláa bandið 1955 og í framhaldinu Flókadeild Kleppsspítalans. AA meðlimir gengu ötulega fram við að hjálpa hvor öðrum þegar svo bar undir. Á áttunda áratugnum varð aftur mikill vöxtur í AA-samtökunum á Íslandi er íslendingar fóru að leita sér hjálpar við alkóhólisma hjá Freeport sjúkrahúsinu í Bandaríkjunum. Þá hóf starfsemi sína Vífilstaðadeild Landspítala Íslands 1976. Margir vesturfarar og fleiri stofnuðu AA deildir þegar heim kom. Samtök áhugafólks um áfengisvandann, SÁÁ, voru stofnuð 1977, en þau samtök komu upp sjúkrahúsi og meðferðarstöðvum sem voru sérhæfðar í meðferð alkóhólisma. Samskipti milli AA og SÁÁ sem og annarra meðferðarstofnanna hafa verið farsæl frá fyrstu tíð. AA-samtökin á Íslandi hafa haldið áfram að eflast og stækka fram á þennan dag. Nú eru haldnir rétt um 300 íslenskir AA-fundir á viku hverri eða u.þ.b. 16.000 þúsund fundir á ári. Má nærri geta að margir hafa öðast nýtt og betra líf fyrir tilstilli þeirra.

Loforðin úr AA bókinni bls 81

Ef við vöndum vel til þessa stigs á þroskaleið okkar mun margt koma okkur þægilega á óvart áður en langt um líður. Við kynnumst nýju frelsi og nýrri hamingju. Við munum ekki finna til beiskju vegna fortíðarinnar eða óska þess að geta lokað á hana. Við munum skilja orðið æðruleysi og vita hvað friður er. Við munum sjá að reynsla okkar getur orðið öðrum til hjálpar - sama hversu djúpt við vorum sokkin sjálf. Tilgangsleysi og sjálfsvorkunn munu hverfa. Við losnum við eigingirnina og fáum áhuga á meðbræðrum okkar og systrum. Sjálfselskan rjátlast af okkur. Öll okkar framkoma og lífsviðhorf munu breytast. Við hættum að vera hrædd við fólk og efnalegt óöryggi. Okkur mun lærast að taka rétt á aðstæðum sem við stóðum áður ráðþrota gagnvart. Okkur mun skyndilega verða ljóst að Guð er að gera það fyrir okkur sem við gátum ekki sjálf. Eru þetta fjarstæðukennd loforð? Við vitum að svo er ekki. Þau hafa ræst í okkar hópi stundum fljótt, stundum hægt og bítandi. Þau rætast alltaf ef við vinnum að þeim.

Æðruleysisbænin

Guð gefi mér æðruleysi til þess að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt kjark til að breyta því sem ég get breytt Og vit til að greina þar á milli.

Hvað er æðruleysi?

Það er óttaleysi, hugarró. Með öðrum orðum: Trú, traust á að það er fast undir fótum, hlý og styrk hönd við hlið, hughreystandi rödd, og birta framundan, þrátt fyrir allt.

Kjarkur

Við erum hvött til að hafa stjórn á öllu. Við erum hvött til að tryggja alla hluti og hafa allt öruggt og poppþétt. Hið heilaga æðruleysi er andstæða þessa. Æðruleysi er að voga að lifa í núinu. Að taka dag í senn, skref í senn. Hjá Guði er aðeins “í dag! Nú.”

Vit

Vit til að greina þar á milli hvað ég þrái, það veit ég. Hvers ég þarfnast, það veit minn æðri máttur. VERÐI ÞINN VILJI EKKI MINN

12 Reynslusopr AA samtakana

1.Við viðurkenndum vanmátt okkar gagnvart áfengi og að við gætum ekki lengur stjórnað eigin lífi.

2. Við fórum að trúa að máttur okkur æðri gæti gert okkur andlega heilbrigð að nýju.

3. Við tókum þá ákvörðun að fela líf okkar og vilja umsjá Guðs, samkvæmt skilningi okkar á honum.

4. Við gerðum rækilega og óttalaust siðferðileg reikningsskil í lífi okkar.

5. Við játuðum misgjörðir okkar fyrir Guði, sjálfum okkur og annarri manneskju og nákvæmlega hvað í þeim fólst.

6. Við vorum þess albúin að láta Guð fjarlægja alla skapgerðarbrestina.

7. Við báðum Guð í auðmýkt að losa okkur við brestina.

8. Við skráðum misgjörðir okkar gagnvart náunganum og urðum fús til að bæta fyrir þær.

9. Við bættum fyrir brot okkar milliliðalaust svo framarlega sem það særði engan

10. Við iðkuðum stöðuga sjálfsrannsókn og þegar út af bar viðurkenndum við yfirsjónir okkar umsvifalaust.

11. Við leituðumst við með bæn og hugleiðslu að styrkja vitundarsamband okkar við Guð, samkvæmt skilningi okkar á Honum, og báðum um það eitt að vita vilja Hans og hafa mátt til að framkvæma hann.

12. Við urðum fyrir andlegri vakningu er við stigum þessi spor og reyndum því að flytja öðrum alkóhólistum þennan boðskap og fylgja þessum meginreglum í lífi okkar og starfi.

12 Erfðavenjur AA samtakana

1. Sameiginleg velferð okkar ætti að sitja í fyrirrúmi, bati hvers og eins er undir einingu AA samtakana kominn.

2. Forsvarsmenn okkar eru aðeins þjónar sem við treystum – ekki stjórnendur.

3. Til þess að gerast AA félagi þarf aðeins eitt, löngun til að hætta að drekka.

4. Sérhver deild ætti að vera sjálfráða, nema í málefnum sem snerta aðrar deildir eða AA samtökin í heild.

5. AA hefur aðeins eitt meginmarkmið, að flytja alkóhólistum, sem enn þjást boðskap samtakana.

6. AA samtökin ætti aldrei að standa að, leggja fé til eða lána nafn sitt neinum skyldum aða óskyldum aðilum, til þess að fjármunir, eignir eða upphefð fjarlægi okkur ekki hinum upphaflega tilgangi.

7. Sérhver AA deild ætti að standa á eigin fótum og hafna utanaðkomandi aðstoð.

8. AA – samtökin eiga ávalt að vera áhugamannasamtök en þjónustumiðstöðvar okkar meiga ráða launaða starfskrafta.

9. AA – samtökin sem slík ætti aldrei að skipuleggja, en við getum myndað ráð eða nefndir sem eru ábyrgar gagnvart þeim sem þær þjóna.

10. AA – samtökin taka enga afstöðu til annarra málefna en sinna eigin, nafni þess ætti því að halda utan við opinberar deilur.

11. Afstaða okkar út á við byggist á aðlöðun fremur en áróðri og nafnleyndar skyldum við ætíð gæta á vettvangi fjölmiðla.

12. Nafnleyndin er hinn andlegi grundvöllur allra erfðarvenju okkar og minnir okkur á að setja málefni og markmið ofar eigin hag.